banner icelandic.jpg
 

Gamanmyndahátíð Flateyrar

Gamanmyndahátíð Flateyrar er án efa fyndnasta kvikmyndahátíð Íslands og þó víðar væri leitað. Hátíðin verður haldin í fjórða skiptið dagana 19.-22. september árið 2019. Þar verða sýndar gamanmyndir frá öllum heimshornum auk þess sem boðið verður upp á leiksýningar, uppistand, tónleika og matarveislur þar sem húmorinn ræður för. Hátíðin fer fram á Flateyri, Hollywood norðursins, en segja má að þorpið sé algjör kvikmyndabær, þar sem fjöldi íslenskra kvikmynda hafa nýtt sér þorpið sem leikmynd auk þess að það er kvikmyndagerðarmaður búsettur í nánast öðru hverju húsi í þorpinu.

Hátíðin var stofnuð árið 2016 af þeim Eyþór Jóvinssyni og Ársæli Níelssyni afþví að þeim leiddist svo á öðrum kvikmyndahátíðum, þar sem dramað og þunglindið réði ríkjum. Þeirra eina markmið er að halda kvikmyndahátíð sem er skemmtileg og fær fólk til að hlæja. Nú nokkrum árum síðar hefur hátíðin fest sig í sessi og hefur sýnt hátt í hundrað gamanmyndir fyrir tæplega tvö þúsund gesti.